Wednesday, April 6, 2011

Okkar eigin Osló

Ég veit að þetta er ekki myndin sem við áttum að sjá en mamma mín vildi endilega fara í bíó á hana og bauð mér með (þ.a. ég vona þetta sé í lagi og ég fái mætingu þar sem þetta er jú íslensk mynd).
Okkar eigin Osló fjallar um mann og konu sem kynnast í viðskiptarferð í Osló. Þegar þau eru komin heim til Íslands þá býður maðurinn sem heitir Haraldur konunni (Vilborgu) á deit. Þetta fyrsta deit varir alla myndina. Eftir morgunmatinn, sem hann bauð henni í, enda þau einhvernveginn á því að fara í bústaðinn hans saman ásamt skrýtnu systur Haralds og syni Vilborgar honum Kolbeini sem nennir engann veginn að vera þarna. Í bústaðinn kemur svo barnsfaðir Vilborgar einnig sem er leikinn af Hilmi Snæ, mamma Haralds og frændi (leikinn af Ladda) með mjög skrautlegum og fyndnum afleiðingum.
Hann Haraldur er mjög seinheppinn maður og þegar í bústaðinn er komið þá breytist hann í allt aðra manneskju sem leyfir sér ekki neitt. Þegar líður á myndina kemur þó smám saman í ljós af hverju það er....

    
Myndin er mjög góð afþreying. Mér fannst myndin byrja mjög hægt en þegar líður á myndina verða aðstæðurnar sífellt vandræðalegri og vandamál persónnanna skína í gegn. Hún er mjög fyndin en ekkert meira en það, ekki mikill söguþráður eða neitt. Þar sem ég var í stuði fyrir létta grínmynd þegar ég var að fara í bíó hentaði hún mér ágætlega og því fannst mér hún ná því fram sem ég bjóst við af myndinni.
Ágætis leikur er í myndinni og með aðalhlutverkin fara Þorsteinn Guðmundsson og Brynhildur Guðjónsdóttir.
Með önnur hlutverk fara: Elma Lísa, Steindi jr., Ari Eldjárn, Laddi, María Heba Þorkelsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Valgeir H. Skagfjörð.
Þorsteinn guðmunddson skrifaði handritið af myndinni og skín það í gegn því að þetta er akkurat húmorinn hans, svo að ef ykkur finnst hann fyndin skellið ykkur þá á myndina í bíó.
Sem sagt ef þið viljið sjá fyndna og ágætis mynd í bíó skellið ykkur þá á þessa.





1 comment:

  1. Mæting gefin.

    Mér fannst þessi líka alveg ágæt. Svona lítil, sæt og fyndin mynd. Besti hlutinn fannst mér karakterinn hans Þorsteins og hvað hann var fáránlega "square" (sbr. t.d. skotið hér fyrir ofan - "Það er ekki nammidagur").

    Ágæt færsla. 5 stig.

    ReplyDelete